Verk Hörpu Árnadóttur fela í sér tilraunakennda rannsókn á yfirborði og gegnsæi en grunnur margra verka hennar er hugmyndin um að líta megi á málverk sem sjónræna ljóðlist. Sýningin samanstendur meðal annars af verkum af fossum, en Harpa hóf að mála fossa þegar hún var í málaradeild MHÍ árið 1990 og hefur það myndmál fylgt henni allar götur síðan. Sjálf segir hún; „Að horfa á foss er eins og að horfa á eilífðina sjálfa. Þúsund ár á þúsundir ára. Þetta eru sjávarföllin í sálinni. Á þessum ferðalögum ferðast þú um innra landslag. Ég teikna ljósfossa því það er unun að horfa á þá myndast hægt og hægt úr pappírnum. Teikning er eins og andardráttur“.
Mörg verkanna á sýningunni eru samsett úr lögum af vatnsleysanlegum lit og lími sem um síðir koma sprungur í. Verkin minna á landslag og aragrúa litbrigða. Sprunguverkin taka marga mánuði jafnvel ár að verða til.