Í heimspeki á hugtakið „Ergon“ við um hinn framleidda hlut, eða það sem einkennir hann sem verk unnið af hendi manneskju. „Ergon“ listaverks er þar af leiðandi afrakstur listamannsins, eða sköpunarverk hans. Tónverk er afrakstur tónskálds, höggmynd er afrakstur myndhöggvara og málverk er afrakstur listmálara.
Hugtakið „parergon“ á hins vegar við um eitthvað sem fylgir verkinu án þess að vera hluturinn sjálfur.
Í bókinni „Sannleikurinn um málverkið“ veltir franski heimspekingurinn Jacques Derrida fyrir sér eðli málverks og horfir þá sérstaklega til „parergon“ þess. Derrida byrjar þessar vangaveltur sínar á því að vitna í franska listmálarann Paul Cézanne sem kvaðst hafa áhuga á merkingunni sem ekki er sýnileg í málverkinu, á sama tíma og hann sagðist fást við sannleikann í málverkinu. En í þessu viðhorfi Cézanne liggur hrópandi mótsögn. Hún er að hulin merking og sannleikur geta ekki verið eitt og hið sama nema maður horfi á merkinguna sem er ekki sýnileg í málverkinu sem sannleikann í málverkinu. Við getum því ekki greint málverk með því að horfa eingöngu á það sem er innan ramma þess og sleppt því sem er utan hans, eða öfugt, samkvæmt Derrida, því: „Takmörk þess sem er fyrir innan og utan, hljóta, á einhverjum skilum, að vera samtvinnuð“. Eða, til þess að taka þetta jafnvel skrefinu lengra, verður sannleikurinn sem er ósýnilegur í málverkinu fjarveran sem skilgreinir málverkið.