29.08 –
21.09.2024
@ Listval Gallery

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir

FÖLBJARTUR SKÆRDJÚPUR

Í verkum sínum skoðar listakonan Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir gjarnan birtingarmyndir kerfa,  hvernig einstaklingurinn er undir áhrifum þeirra, en um leið mótar þau og virkjar í eigin þágu. Á sýningunni FÖLBJARTUR SKÆRDJÚPUR má sjá samtal litríkra, ofinna málverka sem eru í senn kerfisbundin og sett fram til að glæða skilningarvit áhorfandans. Þessi innbyggða tvíhyggja verkanna, efnis og anda, kerfis og skynjunar, marka endurtekið stef innan rannsóknarsviðs listakonunnar sem leikur sér gjarnan að því að skoða þá togstreitu og í raun þá þversögn sem einkennir blæbrigði mannlegrar tilveru.

Litir búa yfir ákveðnu aðdráttarafli, áhrif þeirra og skilningur okkar á þeim er í senn persónubundinn, menningarlegur og óneitanlega gildishlaðinn. Þar sem við sátum á móti hvor annarri á vinnustofunni hennar, lýsti Ingunn því hvernig hún velur liti og greinir samsetningu þeirra. Litavalið vekur upp líkamleg viðbrögð hjá listakonunni, hún fær vatn í munninn og fiðring í maganum þegar hún finnur ákjósanlega samsetningu.

Ingunn gefur sér góðan tíma við gerð verkanna. Hún málar uppistöðuna og stundum ívafið um leið og hún vefur sem gefur henni tækifæri til að stýra bæði litbrigðum og áferð. Valið á lit þráðarins, innri og ytri umgjörð rammans mynda samsetta heild sem er best notið þegar verkin eru skoðuð á víxl, í nálægð og í fjarlægð. Flæðið á milli efnis og anda, kerfis og skynjunar, verður í þessu samhengi fremur áreynslulaust. Auðgert er fyrir áhorfandann að skerpustilla athyglina á þá liti og litaárur sem einkenna verkin, sem og að gaumgæfa í rúðustrikað, alræði vefnaðarins og formúlukennda uppsetningu þeirra.

Í samtölum okkar minntist hún á löngunina til að kalla fram sjónræna togstreitu hjá áhorfandanum. Á þessari sýningu eru áhorfendur því hvattir til að skoða verkin frá mismunandi sjónarhornum, sem heild, í nálægð og ekki síst að taka eftir því hvort eitthvert þeirra kalli á meiri athygli og mögulega viðbrögð. 

Karina Hanney Marrero, listfræðingur

Verk á sýningu

Ofið málverk (dimmblár, fölgrænblár)
akrýl, bómull, ull, viður
43
x 43 cm
IFI042
Ofið málverk (dökkgrænblár, fölbleikur)
akrýl, bómull, ull, viður
43
x 43 cm
380.000 kr.
IFI044
Ofið málverk (fölbleikur, dökkgrænn)
akrýl, bómull, ull, viður
43
x 43 cm
380.000 kr.
IFI041
Ofið málverk (fölgrænblár, skærbleikur)
akrýl, bómull, ull, viður
43
x 43 cm
380.000 kr.
IFI043
Ofið málverk (skærgulur, fölfjólublár)
akrýl, bómull, ull, viður
43
x 43 cm
380.000 kr.
IFI040
Ofið net (ljósblár, dimmblár, dökkvínrauður)
akrýl, bómull, viður
43.5
x 52 cm
380.000 kr.
IFI047
Ofið net (ljósbleikur, dökkbleikur, dimmblár)
akrýl, bómull, viður
43.5
x 52 cm
380.000 kr.
IFI048
Ofið net (ljósgrænblár, dökkgrænblár, djúpvínrauður)
akrýl, bómull, viður
43.5
x 52 cm
380.000 kr.
IFI045
Ofið net (ljósgulur, dimmgulur, dökkfjólublár)
akrýl, bómull, viður
43.5
x 52 cm
380.000 kr.
IFI046

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir (f. 1976) útskrifaðist með MA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2017 og BA gráðu í myndlist frá sömu stofnun árið 2007. Hún er einnig með BA gráðu í listasögu frá háskólanum í Árósum frá 2002. Í listsköpun sinni fæst Ingunn við ýmsa miðla eins og málverk, vefnað og innsetningar. Verk hennar fela oft í sér gagnvirkni eða beina þátttöku og teygir hún þannig verkin inn í opið kerfi þar sem þau lifna við fyrir tilstilli áhorfenda og rýmisins.

Verk Ingunnar hafa verið sýnd víða í söfnum og galleríum bæði innanlands og erlendis. Þar ber helst að nefna einkasýningar í Listasafni Íslands, Listasafni Árnesinga og Cuxhavener Kunstverein. Ingunn hefur tekið þátt í fjölda samsýninga, meðal annars í Listasafni Reykjavíkur, Cluj safninu í Rúmeníu og tvíæringnum Prag 5 í Tékklandi. Á ferli sínum hefur Ingunn hlotið ýmsa styrki og viðurkenningar. Árið 2022 var hún handhafi verðlauna úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur sem árlega er veittur framúrskarandi listakonu.

Ljósmyndari: Helgi Vignir Bragason
Shopping Cart