Fegurð íslenskrar náttúru – snævi þaktar fjallshlíðar, mosavaxið land og víðáttumiklar hraunbreiður – hefur lengi veitt listafólki og hönnuðum innblástur. Þessi kröftugu einkenni landslagsins mynda sameiginlegan snertiflöt í samstarfi Lilý Erlu Adamsdóttur og Thoru Finnsdóttur. Samvinna þeirra, sem er í sífelldri þróun, er nú sýnd í fyrsta sinn á HönnunarMars í Listval Gallerí.
Lilý Erla og Thora nálgast listina hvor með sínu móti, en í samvinnu þeirra myndast samtal þar sem hugmyndir, aðferðir og efnisnotkun fléttast saman. Lilý Erla vinnur með efnismiðaða og rýmislega nálgun þar sem textílverk hennar spretta úr persónulegum upplifunum og verða að huglægri túlkun á formum og fyrirbrigðum náttúrunnar. Thora nálgast viðfangsefnið á annan hátt. Í verkum sínum skoðar hún tengsl manns og náttúru og leitast við að miðla nærveru og sérstöðu íslensks landslags. Með skúlptúrum og steinþrykki vinnur hún úr hughrifum og leitar að sögum sem búa í efninu – þar sem náttúran stýrir samspili forms og útfærslu.
Sýningin varpar ljósi á hvernig þessar ólíku aðferðir hafa áhrif hvor á aðra og mynda lifandi samtal milli textíls og keramiks. Lífræn, bylgjótt form verkanna kalla fram hraunbreiður Íslands, en abstrakt eðli þeirra gefur til kynna tengingu sem nær út fyrir náttúruna sjálfa og að mannslíkamanum. Verkin hvetja áhorfendur til að íhuga eigið samband við landslagið og náttúruna sem mótar tilveru okkar.