Gjörningaklúbburinn sem nú er skipaður myndlistarkonunum Eirúnu Sigurðardóttur og Jóní Jónsdóttur var stofnaður af þeim ásamt myndlistarkonunni Sigrúnu Hrólfsdóttur árið 1996. Sigrún starfaði í Gjörningaklúbbnum til ársins 2016 og grafíski hönnuðurinn Dóra Ísleifsdóttir frá árinu 1996 til 2001. Hugmyndir Gjörningaklúbbsins tengjast oft félagslegum málefnum með feminískum áherslum í bland við glettni og hressandi einlægni. Gjörningaklúbburinn vinnur í þá miðla sem þjóna hugmyndum hans hverju sinni, svo sem gjörninga, ljósmyndir og innsetningar og nýtir sér gjarnan verkfræði ömmunar, handverk og útsjónarsemi í bland við glæsileika og nútímatækni. Gjörningaklúbburinn á að baki fjölda einka- og samsýninga í söfnum og galleríum um allan heim þar á meðal MoMA í New York, Kunstahalle Vienna, Schirn Kunsthalle, Hamburger Bahnhof, Amos Anderson, ARoS og Lilith Performance Studio.