27.01 –
17.02.2024
@ Listval Gallery

Ragnhildur Weisshappel

Sykurskírn

Ég segi oft við konuna mína, Ragnhildi, að hún ætti að kynna sér kenningar skammtafræðinnar. 

Ég tek það fram að ég er enginn vísindamaður en samt sem áður, þegar við Ragnhildur eigum í samræðum um listsköpun hennar, hugmyndir og aðferðir, þá leiði ég oft hugann að skammtafræði. „…Ma chérie, þetta er áhugavert. Af hverju skoðar þú ekki skammtafræði?“ Fyrst þegar ég nefndi þetta við hana varð hún hugsi og spurði hvers vegna en síðan þá hafa kenningar skammtafræðinnar ítrekað komið til tals í umræðum okkar. Ég er ekki viss hvort hún kaupi „kenningar“ mínar en mig langar að gera tilraun til að útskýra mál mitt, enn einu sinni.

Úr hverju er list? Er hún „hlutur“ búinn til úr raunverulegum einingum t.d. byggingareiningum sem hægt er að mæla eða mögulega endurgera? Spurningarnar hljóma kannski barnalega eða jafnvel út í hött þar sem skilgreiningar á list miðast út frá óáþreifanlegum þáttum. En listin, eins og efnið sjálft, er í grunninn aðferð sem byggir á margskonar samverkandi áhrifum og því læðist sú hugsun að mér að kannski sé til svar við þessum spurningum. Lítum á verk Ragnhildar:

Þegar gengið er inn í rýmið blasa bláu, rauðu og eða grænu kompósisjónirnar við áhorfandanum, meðalstórar í sniðum. Lögun þeirra er regluleg, verkin virðast flöt og yfirborð þeirra sýnir tvílita mynd; litaða þvers og kruss í rammanum. Í fyrstu virðast verkin vera abstrakt málverk en þegar nær er komið gæti þó hugmyndin um hið hefðbundna málverk hörfað. Verkin eru unnin úr einhverju skrítnu, ekki málningu á striga eins og haldið var í fyrstu. Umræðan um málverk verður annars eðlis. Hvað er þetta?

Við nánari skoðun kemur það í ljós: Sykurmolar. Hvít-hreinsaðir sykurmolar. Allir svipaðir að lögun og stærð. Sykurmolana litar listamaðurinn með vissri dýfingartækni, hverjum og einum er dýft varlega í blöndu af málningu og vatni. Sykurmolarnir drekka í sig blönduna og innan nokkurra sekúndna festist litur í sykurkornunum. Markmiðið er að molarnir séu hálfmálaðir og listamaðurinn með vissa stjórn á ferlinu. Hver moli hagar sér þó á sinn hátt og hver og einn fær einstakt litbrigði. Sykurmolunum er svo raðað saman hlið við hlið. Úr verður samsett heild af mörgum einstökum molum.

Segja má að skammtafræðin sé könnun á grunneiningum efnis og orku. Þar er reynt að svipta hulunni af eigindum og hegðun minnstu byggingareininga náttúrunnar. Í heimi skammtafræðinnar geta efniseindir og ljóseindir verið í mismunandi ástandi og jafnvel mörgum á sama tíma. Ljóseindir, rafeindir, róteindir og nifteindir geta sem dæmi hagað sér sem bylgjur, eins og hljóð, og sem eindir, eins og korn. Þessi undraverða hegðun gerir það að verkum að ekki er unnt að mæla ástand skammtakerfis, eins og ástand eða staðsetningu, heldur einungis líkurnar á ástandi og staðsetningu þess, sem á endanum ákvarðast af handahófi. Ólíkt klassískri eðlisfræði, þar sem hlutir hafa mælanlega og fasta eiginleika, byggir skammtafræðin í eðli sínu á líkindum.

Verkið sem er 119 x 119 sm inniheldur 6400 litaða sykurmola. Mögulegar uppraðanir 6400 mola er tala sem byrjar á 1 og á eftir fylgja 21.592 núll. Hvað gerist ef þú snýrð molunum? Möguleikarnir margfaldast og verða stjarnfræðilegir. Bættu við litum, og möguleikarnir, og þar af leiðandi möguleikarnir á mögulegum listaverkum, verða nánast óendanlegir. Það er eðlilegt að maður missi máttinn við tilhugsunina um slíkar stærðir. Þetta er alltof óreiðukennt. Ein leið hlýtur að vera betri en önnur.

Starf Ragnhildar, og annarra listamanna, snýst um að taka ákvarðanir. Hún þarf að finna bestu möguleikana á að finna sinn sannleika gagnvart eigin listsköpun. Hversu erfitt er það þegar mögulegir valkostir eru óendanlega margir? Eru sumir möguleikar betri en aðrir? Svarið er já. Sumir möguleikar eru betri og áhugaverðari en aðrir í list. Ef það væri ekki svo, væru öll málverk í heiminum ómáluð. Rétt eins og öll tónlist væri þögul, bækurnar óskrifaðar og kvikmyndir myrkar. Ef ekki væri fyrir betri valkosti væri alheimurinn sjálfur tómarúm, og ekki til.

Við Ragnhildur dveljum jafnan í möguleikunum og veltum fyrir okkur ólíkum leiðum. Það er mikil gæfa og forréttindi að hafa tök á því og okkur ber að virða það og varðveita. Án fjölbreytilegra sjónarmiða og ímyndunarafls væri lífið tilgangslaust, jafnvel hættulegt. Í sykurmolaverkunum finnst mér list vera til í skýi allra mögulegra möguleika og það er góð tilfinning að vita af því. En við þurfum að vera meðvituð um möguleikana og Ragnhildur þarf að framkalla þá. Sumir möguleikar af þessum óendanlegu raungerast. Ragnhildi tekst að virkja ímyndunarafl okkar til að sjá ótæmandi möguleikana og upplifa frelsið í þeim. Með slíkri gagnvirkni mun listin ef til vill kristallast.

– David

Verk á sýningu

Blá kompósisjón / Composition in blue
Sugar / Sykur
120
x 120 cm
490.000 kr.
RW001
Blá kompósisjón / Composition in blue
Sugar / Sykur
60
x 60 cm
RW003
Græn kompósisjón / Composition in green
Sugar / Sykur
120
x 120 cm
RW002
Gul kompósisjón / Composition in yellow
Sugar / Sykur
60
x 60 cm
RW005
Rauð kompósisjón / Composition in red
Sugar / Sykur
60
x 60 cm
RW004

Ragnhildur Weisshappel nam myndlist á Íslandi og í Frakklandi og lauk MFA frá Listaháskóla Íslands vorið 2022. Hún hefur tekið þátt í samsýningum bæði hér heima og erlendis. Ragnhildur vinnur í ýmsa miðla og notar þá sem tæki til að þýða úr einu í annað. Ragnhildur býr og starfar í Svarfaðardal.

Shopping Cart