12.02 –
24.03.2021
@ Norr11

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir

Óreiðukenningin

Á sýningunni Óreiðukenningin veltir Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir fyrir sér kerfum og mynstrum og hvernig heimurinn stjórnast í sífellt meiri mæli af kerfum, algóriþmum og kóðum. Sýnileiki þessara kerfa er mismikill og því ekki alltaf ljóst hvað stýrir hverju, hvað er orsök og hvað er afleiðing. Titill sýningarinnar Óreiðukenningin vísar í kenningu innan stærðfræði um kerfi sem virðast hegða sér tilviljanakennt og án nokkurra lögmála, en er í raun stjórnað af undirliggjandi mynstrum og ákveðnum lögmálum. Á sýningunni ber að líta ofin málverk, teikningar og vatnslitaverk. Í þeim síðarnefndu er undirliggjandi ákveðið grunnmynstur sem Ingunn vinnur ofan á í lögum. Mynstrin sem leggjast yfir eru mismunandi, þó þau ganga út frá sömu grunnformum, sum eru reglubundin á meðan önnur brotna upp, ýmist viljandi eða fyrir tilstilli mistaka. Þannig mætast í verkunum hið reglubundna og hið tilviljanakennda.

Ingunn Fjóla útskrifaðist með M.A. gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands vorið 2017. Hún útskrifaðist með B.A. gráðu í myndlist frá sama skóla árið 2007, en hafði áður lokið B.A. gráðu í listasögu frá háskólanum í Árósum. Verk Ingunnar Fjólu hafa verið sýnd víða í söfnum og galleríum. Þar ber helst að nefna einkasýningar í Hafnarborg og Cuxhavener Kunstverein, þátttöku í alþjóðlega tvíæringnum Prague Biennale, auk fjölda samsýninga innanlands og erlendis. Á ferli sínum hefur Ingunn Fjóla hlotið ýmsa styrki og viðurkenningar.

Shopping Cart