Halldór Ragnarsson er fyrsti listamaðurinn sem sýnir verk sín í sýningaröð Listvals í Norr11. Halldór er fæddur árið 1981 og býr og starfar í Reykjavík. Hann vinnur aðallega með málverk sem miðil og notar oft texta í verkum sínum þar sem setningar eða orð endurtaka sig. Stóru verkin á sýningunni eru einkennandi fyrir þessa nálgun. Minni verkin einkennast af hráum viðareiningum, sumar málaðar, aðrar ómeðhöndlaðar, sem hann svo raðar saman. Efniviðurinn er hér endurtekningin í stað orða eða setninga. Þegar titlar verkanna eru skoðaðir skapa þeir ákveðna upplifun og túlkun fyrir áhorfandann sem gaman er að velta fyrir sér.