Magnús Helgason heldur sig við sama heygarðshornið – alltaf að mála, en líka mikið í því að „ekkimála“. Ein hugmyndin á bak við fagurfræðina í verkunum er að mála sem minnst, að skilja lítið eftir af eigin pensilskrift. Hann reynir frekar að raða saman tilviljunum sem finnast á förnum vegi, að láta náttúruna sjá um að búa til listina. Hlutverk hans er að koma auga á hana og ramma hana inn. „Ég er kannski frekar innrammari en málari,“ segir hann.
Litirnir eru sterkir, eins og oft áður. Þeir hafa einlægan og barnslegan blæ – en Magnús segist vinna út frá einhvers konar frumheila, forðast að ritskoða sjálfan sig og eltir það sem honum finnst. „Ég laðast að sterkum litum, svona er þetta bara.“
Þróun verka hans er hæggeng en þó viðstöðulaus. Verkin eru afrakstur vinnu undanfarinna 16 mánaða, allt frá árinu 2023. „Ég er svo nálægt verkunum að ég skynja ekki þróunina fyrr en eftirá.“
Titill sýningarinnar „Geislaspinnar Magnúsar 2025“ vísar í þá orku sem birtist í verkunum. Sterkir litir skjótast yfir myndflötinn eins og geislaskot. Hann vildi gefa verkunum nútímalegan eða jafnvel framtíðarlegan blæ og notaðist óvenjulega mikið við laser-geisla-hallamál við það að raða þeim saman, til að tryggja nákvæmni. „Mér finnst líka felast einhver bjartsýni í þessum titli sem mér finnst gott að senda út í blöðruna.“