24.09 –
14.11.2021
@ VEST

Brynhildur Þorgeirsdóttir, Geirþrúður Einarsdóttir & Lilý Erla Adamsdóttir

Firnindi

Á sýningunni nálgast myndlistarmennirnir Brynhildur Þorgeirsdóttir, Geirþrúður Einarsdóttir og Lilý Erla Adamsdóttir viðfangsefni sín á fjölbreyttan hátt með ólíkri efnisgerð og hugsun, sem tengjast þó öll náttúrunni. Þá er efniviður listamannanna einkennandi fyrir listsköpun þeirra.

Brynhildur Þorgeirsdóttir hefur alla tíð unnið með steinsteypu og gler. Í skúlptúrum sínum, sem eru steyptir með steinsteypu, myndast samtal á milli glersins og sandsins því form glersins leiðir áfram form steypunnar. Þannig lætur hún efnið ráða ferlinu og leyfir verkinu að tala til sín. Hún steypir gler í sand eins og hraunflæði og blæs í gler eins og planta sem vex. Brynhildur hermir ekki eftir náttúrunni, hún vinnur einfaldlega eins og hún.

Verk Geirþrúðar Einarsdóttur eru þrívíð málverk þar sem hún mótar form fjallstinda á hör og bómullarstriga. Verkin eru sniðin með nákvæmum hætti þar sem mismunandi lög og efni búa til þrívídd í verkum hennar. Í einstaka verkum bregða fyrir sprungur í fjöllunum og hreinum línum sem brjóta upp myndflötinn. Þá saumar Geirþrúður einnig í sum verkanna með örfínum tvinna sem verður eins og nokkurs konar blýantsteikning ofan á efninu. Það má því segja að verk Geirþrúðar séu allt í senn teikningar, skúlptúrar og málverk.

Lilý Erla Adamsdóttir notast við náttúrulegan efniðvið s.s. mohair og ull. Einkennast verk hennar af endurtekningu í línum, litum og lífrænum formum sem hreyfast eftir myndfletinum eins gróður, vatn eða jafnvel hraun. Yfirborð og áferð efniviðarins eru henni hugleikin en óræð formin eru merki um lífið sjálft og tákna samruna tveggja sjónarhorna. Skoðar hún handgerða endurtekningu, möguleika hennar og takmarkanir. Hvernig hið einstaka kallast á við fjöldann um leið og fjöldinn skapar einstakan samhljóm. Lilý talar ýmist um verkin sín sem loðin málverk eða dansandi útsaum.

Brynhildur Þorgeirsdóttir (f. 1955) stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Gerrit Rietveld Academie í Hollandi og California College of Arts and Crafts, auk sérnáms í gleri við Orrefors í Svíþjóð og Pilchuck Glass School í Bandaríkjunum. Verk Brynhildar er að finna í öllum helstu söfnum landsins og í erlendum söfnum. Útilistaverk eru í m.a. í eigu Reykjavíkurborgar, Garðabæjar, Akureyrar og Alingsås í Svíþjóð. Hún hefur hlotið styrki og viðurkenningar fyrir verk sín og má þar nefna að hún hefur tvisvar sinnum fengið úthlutun úr The Pollock-Krasner Foundation.

Geirþrúður (f. 1989)  útskrifaðist af myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2016. Haustið eftir útskrift var hún starfsnemi hjá listamannarekna rýminu A-Dash í Aþenu. Geirþrúður er einnig menntaður klæðskeri og er textíll og saumur því oft áberandi í verkum hennar. Geirþrúður leitast eftir því að verk hennar séu rík í efnisgerð en á sama tíma létt og fínleg. Undanfarið hefur hún einbeitt sér að málverkinu. Hún hefur sýnt hér heima og erlendis.

Lilý Erla Adamsdóttir (f. 1985) lauk BA gráðu í myndlist frá LHÍ 2011 og MA gráðu í listrænum textíl frá Textilhögskolan í Borås í Svíþjóð 2017. Hún vinnur á mörkum myndlistar, hönnunar og handverks. Undanfarið hefur hún nýtt sér eiginleika tufttækninnar til skoðunar á þræðinum og sjónrænna áhrifa hans, þegar kemur að samspili lita og efniseiginleika. Lilý Erla hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér á landi sem og erlendis og ber helst að nefna einkasýningarnar Skrúðgarður í Listasafni Akureyrar og Skrúður í SÍM salnum.

Shopping Cart