29.10 –
12.11.2022
@ Listval, Grandi

Halldór Ragnarsson

Hérna, núna og kannski á eftir

Á sýningunni Hérna, núna, og kannski á eftir veltir Halldór Ragnarsson fyrir sér þeirri eilífu hringrás tilfinninga í tengingu við merkingu og heimspeki tungumáls. Í verkunum skoðar Halldór hvernig endurtekning getur mögulega dregið úr merkingu orða og leikur sér með reglur tungumálsins og óvenjuleg orðasambönd. Setningarnar í verkunum koma úr hans nærumhverfi og með þeim reynir hann að máta sig og hans persónulega líf við málspekina og merkingu tungumáls almennt. Oftast koma þessi orðasambönd upp út frá einhverju afar persónulegu, jafnvel dagbókinni hans.

„Eru orðasambönd merkingarlaus ef þau vísa ekki á neitt? Að endurtaka „Ég elska þig“ aftur og aftur, jafnvel daglega – ár eftir ár, verður hún innihaldslaus? Standa bara orðin eftir tóm? „Til að mynda ef ég myndi skrifa „ég er glaður“ aftur og aftur í marga klukkutíma á hverjum degi í marga mánuði. Er hún merkingarlaus? Hún vísar auðvitað í að ég hafi verið glaður í fyrsta skipti þegar ég skrifaði hana en er á sama tíma innihaldslaus þegar ég skrifa hana nokkrum dögum seinna kannski óhamingjusamur?“ 

Setningar sem koma fram á sýningunni eru t.d. „Alltaf aftur að þessu”, „Bara svona og alls ekki meira”, „Við hittumst alltaf aftur“, „Á bara ekki orð“, „Ég er hérna akkúrat núna“, „Hmmmm“. Flestar þessar setningar, og hvernig þær koma fram í verkunum, vísa beint í tíma og augnablik og tilfinninganna sem snerta á þessum augnablikum. 

Endurtekning eins og hann setur hana fram er hugsuð sem mantra. Mantra er notuð til þess að staðsetja sig í núinu. Með því að endurtaka þessar setningar nær Halldór að staðsetja sig í núinu, þar sem setningarnar virka sem ákveðið mantra í hans listsköpun. Í þessu ferli myndast ró yfir verkunum hans Halldórs, þar sem í verknaðinum við að skrifa textann er hvorki fortíð né framtíð.      

Halldór Ragnarsson (f. 1981) lauk B.A. gráðu (2007) og M.A. gráðu (2014) frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands eftir að hafa numið heimspeki áður við Háskóla Íslands. Halldór á 13 einkasýningar að baki ásamt því að hafa tekið þátt í fjölda samsýninga; bæði hér og erlendis.

Shopping Cart