Málverk Hallgríms Árnasonar verða til í marglaga ferli þar sem hreyfing, tilviljanir og tími spila lykilhlutverk. Snarpar hreyfingar—strokur, skvettur og önnur expressíonísk ummerki eru áberandi í verkunum. Með endurteknum lögum málningar mótar hann yfirborð sem minnir á náttúrufyrirbæri, líkt og veðraðan stein, storknað hraun eða umbreytt landslag.
Verk Hallgríms Árnasonar kalla fram tilfinningu fyrir einhverju frumstæðu; óræðu landslagi sem virðist bæði ókunnugt og framandi. Útkoman er upplifun sem vekur forvitni og hvetur áhorfandann til að mæta hinu óþekkta – ekki sem gátu til að leysa, heldur sem upplifun til að skynja.