Steingrímur Eyfjörð (f. 1954) er meðal hinna fremstu í þeirri kynslóð íslenskra listamanna sem fram kom á áttunda áratugi síðustu aldar. Í vinnu sinni nýtir hann sér fjölbreytta miðla, þar á meðal ljósmyndun, teiknimyndir, myndbönd, málun, skúlptúra, gjörningalist, skrif og innsetningar. Efnisvalið er álíka fjölbreytt; hann sækir innblástur í jafn ólíkar áttir og þjóðsögur, Íslendingasögur, tískutímarit, trúarbrögð, hjátrú, krítíska teoríu og margs konar annað efni úr samtímanum, í meðförum hans skarast þau á margræðum tengipunktum þannig að úr verða marglaga verk, á stundum rugla þau mann í ríminu en í þeim birtist ævinlega skýr og óvænt sýn á þau viðfangsefni sem unnið er með. Steingrímur var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2007.