fbpx
5.11 –
10.01.2022
@ Norr11

Helga Páley

Fugl

Ég horfi upp í himinn og sé fuglana fljúga fyrir ofan mig. Ég leik mér að því að ímynda mér að ég sé enn barn en tíminn líður. Ég sit í skólastofu, áhugaleysið fær mig til að teikna á spássíur stílabókarinnar. Ég bý mér til mitt eigið tungumál. Framtíðar tungumál.“ – Helga Páley

Í tilverunni erum við stöðugt í tengingu við fortíð, nútíð og framtíð. Við erum hér og nú en fortíðin mótar okkur, framtíðin bíður okkar og minnir á sig og allt tengist þetta órjúfanlegum böndum. Fortíð, nútíð og framtíð er rauður þráður sýningarinnar Fugl eftir Helgu Páley Friðþjófsdóttur.

Til sýnis eru ný verk eftir Helgu Páleyju sem tengjast öll sama tímabili í lífi listakonunnar og eru hluti af sama ferli. Tíminn, sem einkennist af breytingu, tvinnast listsköpuninni órjúfanlegum böndum þar sem líðandi stund er eins konar óendanlegt millibilsástand. Helga Páley er alin upp á Snæfellsnesi en þar er að finna stærsta kríuvarp Evrópu. Því má segja að fuglarnir tengi hana sterkum böndum við æsku sína og þessar rætur skjótast upp í gegnum listsköpun hennar. Fuglinn táknar fortíðina, tímaglasið nútímann og framtíðin einkennist enn af óræðum línum. Allt skilar þetta sér yfir á strigann í ólíkum formum og listaverkin veita áhorfendum frelsi til að túlka þau út frá eigin reynslu og upplifun.

Texti: Dóra Júlía Agnarsdóttir

Helga Páley (f. 1987) býr og starfar í Reykjavík. Hún lauk BA-prófi frá Listaháskóla Íslands árið 2011. Frá útskrift hefur Helga meðal annars verið framkvæmdastjóri listahátíðarinnar Ærings á Rifi 2012. Frá árunum 2013 til 2015 var Helga partur af Kunstschlager hópnum og tók þátt í að reka gallerí við Rauðarárstíg 1 og síðar í Listasafni Reykjavíkur. Helga útskrifaðist einnig með diplóma úr Motion Creative í Hyper Island, Stokkhólmi, árið 2018. Síðustu ár hefur Helga sýnt á fjölmörgum stöðum og má þar nefna Listasafn Reykjanesbæjar, Gallerí Port, Ásmundarsal og Safnasafnið á Svalbarðseyri. Samhliða myndlistinni hefur hún einnig unnið sem teiknari, bæði við myndskreytingar og hreyfimyndagerð.

Shopping Cart