fbpx
22.04 –
20.05.2023
@ Listval, Grandi

Guðrún Einarsdóttir

Málverk

Á sýningunni Málverk birtir Guðrún Einarsdóttir okkur áferðamikil verk þar sem lífræn form, efniskennd og áferð eru allsráðandi. 

Á ferli sínum hefur Guðrún gert tilraunir með eiginleika olíunnar og þróað margs konar áferðir sem einkenna verk hennar. Úr verður einstakur myndheimur sem vísar í tilbrigði og form náttúrunnar, nokkurs konar efnislandslag á striga, eins og listamaðurinn segir sjálfur um verkin. 

Verkin vinnur Guðrún flöt á borðum, mánuðum og jafnvel árum saman. Aðferðir hennar eru vísindalegar og nákvæmar en hún nýtir einnig þekkingu sína á lífrænu ferli efniviðarins þar sem hún leyfir því óvænta og ófyrirséða að gerast. 

Í verkum Guðrúnar finnum við vel fyrir náttúrunni. Áhorfandinn skynjar tilvísanir í fjölbreytt náttúrufyrirbæri og náttúruferli sem og síbreytilega mótun, líkt og formin hafi vaxið með og upp í gegnum strigann.

Verk á sýningu

Væntanlegt

Guðrún Einarsdóttir (f. 1957) er einn fremsti íslenski myndlistarmaður samtímans. Hún stundaði nám í málaradeild og fjöltæknideild Myndlista- og Handíðaskóla Íslands á 9. áratugnum, ásamt námskeiðum í efnafræði síðar á ferlinum. Hún hefur á ferli sínum skapað einstakan myndheim sem sóttur er í myndanir og form í náttúrunni. Séð úr fjarlægð eru málverk hennar sláandi í einfaldleik sínum en þegar nær er komið lýkst upp heillandi veröld margbreytilegra smáatriða. Verk Guðrúnar mætti kalla „náttúrumálverk“, en þau eru í grundvallaratriðum byggð á tilraunum hennar með olíumálningu, bindi- og leysiefni. Í sköpun verkanna kannar Guðrún undirliggjandi form efnanna með því að framkalla tilraunir með blöndun olíumálningu og bindi- og leysiefna. Með þessu móti er hlutverk listamannsins eingöngu að skapa umgjörð fyrir efnabreytingar með það að leiðarljósi að kalla fram innra líf efnanna. Listamaðurinn stjórnar ekki ferlinu, en fylgir breytingunum eftir með því að stýra skömmtum og sjá til þess að efnin fái nægjanlega langan tíma til að þorna – en þessir tveir þættir eru mikilvægir hvað varðar mótun þess landslags sem efnið geymir. Undanfarna tvo áratugi hefur Guðrún Einarsdóttir tekið þátt í fjölda samsýninga, en einnig sýnt einkasýningar bæði á Íslandi og erlendis. Hún er fulltrúi Íslands á alþjóðavettvangi, en verk hennar er að finna bæði á opinberum söfnum sem og í einkaeign.

Shopping Cart