Ég geng um og gægist inn á milli bila
Má ég kíkja?
Í sama bili, í því bili, tímabil, brúa bil, um það bil
Ég fálma og þreifa fyrir mér en gríp í tómt
Ég prófa aftur, gríp aftur í tómt
Allt pakkast þetta vel saman í ferðatösku
Ferðatöskusýning, vertu velkomin
Púsl, púst, pússerí, krass og púss
Þetta pússast saman á endanum
Hér og nú og hér og þar,
Hér um bil, fara bil beggja, í bili, bil á milli, bil
Það vantaði naglann svo skeifan tapaðist*
Margt smátt gerir eitt stórt
Á milli, í millibili, á milli bila
* For want of a nail, Benjamin Franklin. The Way to Wealth (1758)
Sigurrós vinnur myndlist sína í blandaða miðla, en þó undanfarið með áherslu á skúlptúra. Hún blandar eigin reynsluheimi, áhrifum frá nærumhverfi sínu og skáldskap og miðlar með þeim ólíkum frásögnum. Á sýningunni Millibil má sjá ný verk þar sem hún vinnur með nokkrar nýjar aðferðir og þau slá jafnvel á örlítið óræðari strengi en vanalega í verkum hennar. Um er að ræða pappírs, textíl, pappamassa og keramik verk þar sem tréliturinn, krassið og krotið er áberandi. Bil eða millibil eru áberandi í verkunum, að gægjast í gegnum bil og þreifa fyrir sér, að vera í millibili, á milli staða.
Sigurrós G. Björnsdóttir (f. 1991) býr og starfar í Antwerpen, Belgíu. Hún lauk meistaranámi í myndlist frá Royal Academy of Fine Arts Antwerp árið 2021 og BA námi í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2017. Sigurrós hefur sýnt verk sín í Belgíu, Íslandi, Hollandi og Þýskalandi.