fbpx
11.09 –
16.10.2021
@ Norr11

Lilja Birgisdóttir

Ilmur landslags

Á sýningunni skoðar Lilja Birgisdóttir plöntur og gróður og þann ilm sem þeim fylgir. Ljósmyndirnar eru nokkurs konar portrett af blómunum þar sem hún velur liti plantnanna út frá upplifun sinni á ilminum sem er af blóminu.

Í verkum sínum hefur Lilja lengi rannsakað liti og þá sérstaklega hvernig þeir breytast eftir birtu skilum og tíma dags. Hún tekur litina út, málar aðra á sem tengjast hennar eigin upplifun í návist blómsins og tengir saman sjónræna skynjun og lyktarskyn. Samhliða ljósmyndunum hefur hún gert ilm úr plöntunum sem veitir áhorfandanum innsýn í lykt plantanna og tengir okkur við efnislegan heim þeirra. 

Á sýningunni má einnig sjá ljósmyndir af litlausu sólarlagi. Fjarvera litanna fær áhorfandann til að upplifa skýjagljúfur og sólarlag með öðrum hætti en í raunveruleikanum. Raunverulegir litir ljósmyndarinnar eru fjarlægðir en sameinaðir á ný í láréttum litaskala fyrir neðan ljósmyndina. Áhorfandinn fær það verkefni að nota ímyndunaraflið við að glæða ljósmyndina lit í huganum. 

Lilja Birgisdóttir (f. 1983) lauk námi í ljósmyndun við Konunglega listaháskólann í Hollandi árið 2007 og BA námi við Listaháskóla Íslands árið 2010. Frá námslokum hefur hún verið einn aðstandanda listamannarekna gallerísins Kling og Bang í Reykjavík og 2011 stofnaði hún listatímaritið Endemi ásamt öðrum listakonum. Lilja hefur unnið í mörgum miðlum og fengist við myndverk, videólist, hljóðgjörninga og ljósmyndun. Þá var Lilja höfundur opnunarverks Listahátíðar í Reykjavík 2013, The Vessel Orchestra, þar sem hún vann með kapteinum Reykjavíkurhafnar að því að búa til hljóðgjörning með skipaflautum fimmtán skipa. Lilja er einn af stofnendum Fisher ilmgerðar.

Shopping Cart