Nýjasta mónóprentsería Gjörningaklúbbsins kemur úr sjónrænum undirdjúpum myndlistarkvennanna Eirúnar Sigurðardóttur og Jóníar Jónsdóttur sem hafa unnið saman undir merkjum Gjörningaklúbbsins frá 1996. Hvert og eitt prent er einstakt og hafa listkonurnar valið sex stór og sex minni verk úr prentferlinu sem helgast af miklu flæði og færni.
31.10 –
25.11.2025
The Icelandic Love Corporation / Gjörningaklúbburinn / Eirún Sigurðardóttir & Jóní Jónsdóttir
Himinskaut
Þær vinna með hversdagslegan efnivið, veiðarfæranet og misgrófofna textílbúta, sem í abstrakt faðmlögum, kalla fram orð hjá listakonunum. Verkin óska bókstaflega eftir því að vera leyst úr viðjum nafnleysisins, eftir að hafa þrykkst á þykkan grafíkpappírinn, orðið til, fyrir tilstilli alkemíu listarinnar.
Með þessum hætti verður til, það sem Gjörningaklúbburinn kýs að kalla babbstrakt sem sagt abstrakt verk þar sem fjórðungi bregður til nafns.
Stundum kemur babb í bátinn þegar gefa á abstrakt verkum nöfn en babbstrakt verkin eru unnin með undirliggjandi sögn í huga, nöfnin eru mikilvægur hluti þeirra og gefa þeim aukinn kraft og vídd.
Þær lýsa þessu svona: „Þegar Heimsálfurinn fékk nafið sitt varð hann allur annar, það sama á við um Póli-tík, Hókus-pókus, Hrók alls, Dúlu og Trans, sem eru nöfn á minni prentunum. Það sama má segja um þau stærri t.d Klettasjal, verk sem birtist á allt annan hátt eftir að það fékk sitt rétta nafn. Himinskaut, Katastrófía, Vitundarvölva, Miðbaugakerfi og Birting, eru einnig nöfn sem öll opna leið inní kviku hvers verks.
Þegar við byrjum á nýrri seríu erum við með ákveðnar hugmyndir um efni sem okkur langar til þess að nota og hverju þau geta miðlað. Í þessu tilfelli vorum við spenntar að sjá hvað fiskinet gæti gert. Við höfum notað það í eldri verkum t.d. sem undirstöðu í skúlptúr sem kom fyrir í kvikmyndaverkinu okkar, Flökkusinfónía sem er einmitt verið að sýna í New York núna. Við gerðum margar tilraunir til þess að ná fram dýpt í þrykkjunum, okkur langaði að ná fram djúpum litum með stjörnupunktum, sem eru hnútarnir í netinu. Löngun til þess að fanga dýptina út í geim og ofaní hafdjúpin.
Við erum einnig uppteknar af heimsmálunum í mjög víðu samhengi, og þar kemur fiskinetið sterkt inn. Í fyrri mónóprentseríum höfum við notað efni einsog nælonsokkabuxur og slæður sem bera sterka fenmíníska sögn í sér og netið er ekki bara fiskinet í okkar huga. Það ber einnig með sér sterka táknmynd fyrir Palestínu, s.s. Palestínuklútinn, og fyrir þá smánartíma sem við lifum núna, sem alþjóðasamfélag, að horfa uppá þjóðarmorð í beinni útsendingu. Við tengjum netið líka við internetið sem er mikill áhrifavaldur í okkar samtíma einsog allir vita en líka við netið sem umlykur hnöttinn á huglægan manngerðan hátt, í lengdar og breiddar gráðum hnattlíkana. Línur sem líta út fyrir að vera í föstum skorðum utanum fullkomna kúlu.
Í okkar prentum eru er allur strúktúr óreglulegri og útreiknanlegri, tákn um heimsvaldakerfi í flækju sem meika ekki sens lengur, veiða bara manneskjuna í net til þess að þjóna kapítalismanum og aftengja okkur náttúrunni og innsæinu. Við lifum líka á tímum alvarlegs bakslags hvað varðar réttindi fólks til þess að ráða yfir eigin líkama og mannréttinda, heilt yfir, sem enginn veit hvert mun leiða, en líka á tímum jákvæðra umbreytinga og byltinga.
Erum við að tala um Katastrófíur með vel flæktu Miðbaugakerfi eða horfum við frammá að geta slegið um okkur Klettasjali í góðum Trans með aðstoð Dúlu nýs heims Vitundarvölvu og Birtingar?
Við höfum allavega lagt út okkar net, fangað form og liti augnabliksins til þess að magna upp hugmyndir babbstraktsins, þó brottkastið hafi verið töluvert, þá erum við stoltar af aflanum.“
Eirún Sigurðardóttur og Jóní Jónsdóttir. Ljósmyndari: Saga Sig.
Gjörningaklúbburinn sem nú er skipaður myndlistarkonunum Eirúnu Sigurðardóttur og Jóní Jónsdóttur var stofnaður af þeim ásamt myndlistarkonunni Sigrúnu Hrólfsdóttur árið 1996. Sigrún starfaði í Gjörningaklúbbnum til ársins 2016 og grafíski hönnuðurinn Dóra Ísleifsdóttir frá árinu 1996 til 2001. Hugmyndir Gjörningaklúbbsins tengjast oft félagslegum málefnum með feminískum áherslum í bland við glettni og hressandi einlægni. Gjörningaklúbburinn vinnur í þá miðla sem þjóna hugmyndum hans hverju sinni, svo sem gjörninga, ljósmyndir og innsetningar og nýtir sér gjarnan verkfræði ömmunar, handverk og útsjónarsemi í bland við glæsileika og nútímatækni. Gjörningaklúbburinn vann með Björk Guðmundsdóttur fyrir Volta plötu hennar 2007 og hefur í gegnum árin unnið að fjölbreyttum verkefnum með listafólki á borð við GusGus, Ensamble Adapter, Ragnari Kjartanssyni og Kiyoshi Yamamoto. Gjörningaklúbburinn á að baki fjölda einka- og samsýninga í söfnum og galleríum um allan heim þar á meðal MoMA í New York, Kunstahalle Vienna, Schirn Kunsthalle, Hamburger Bahnhof, Amos Anderson, ARoS og Lilith Performance Studio.
„Þegar við byrjum á nýrri seríu erum við með ákveðnar hugmyndir um efni sem okkur langar til þess að nota og hverju þau geta miðlað. Í þessu tilfelli vorum við spenntar að sjá hvað fiskinet gæti gert“
ÞIÐ HAFIÐ STARFAÐ SAMAN Í NÆSTUM ÞRJÁ ÁRATUGI, ER EITTHVAÐ SEM KEMUR YKKUR ENN Á ÓVART Í SAMSTARFINU EÐA FERLINU EFTIR ALLAN ÞENNAN TÍMA?
Nálgunin er í grunninn sú sama, hugmyndin ræður miðlinum, en stundum er það samt efnið sem ræður eins og núna með prentin, að sjá hvað efnið getur gert. Við tölum stundum um að verkin okkar séu eins og hluti af tré, einskonar ættartré þar sem að einn hlutur getur átt heima á mörgum greinum, haft mismunandi sögn í sér eftir því hvernig hann er settur fram og í hvaða samhengi. Við höfum til dæmis gert búning úr nælonsokkabuxum sem varð að veggteppi sem varð svo að silkislæðu.
HAFIÐ ÞIÐ UNNIÐ MEÐ ÞENNAN EFNIVIÐ ÁÐUR, Þ.E. FISKINETIÐ?
Við höfum notað það í eldri verkum t.d. sem undirstöðu í skúlptúr sem kom fyrir í kvikmyndaverkinu okkar, Flökkusinfónía sem er einmitt verið að sýna í New York núna. Við gerðum margar tilraunir til þess að ná fram dýpt í þrykkjunum, okkur langaði að ná fram djúpum litum með stjörnupunktum, sem eru hnútarnir í netinu. Löngun til þess að fanga dýptina út í geim og ofaní hafdjúpin. Við erum einnig uppteknar af heimsmálunum í mjög víðu samhengi, og þar kemur fiskinetið sterkt inn. Í fyrri mónóprentseríum höfum við notað efni eins og nælonsokkabuxur og slæður sem bera sterka fenmíníska sögn í sér og netið er ekki bara fiskinet í okkar huga. Það ber einnig með sér sterka táknmynd fyrir Palestínu, s.s. Palestínuklútinn, og fyrir þá smánartíma sem við lifum núna, sem alþjóðasamfélag, að horfa uppá þjóðarmorð í beinni útsendingu. Við tengjum netið líka við internetið sem er mikill áhrifavaldur í okkar samtíma eins og allir vita en líka við netið sem umlykur hnöttinn á huglægan manngerðan hátt, í lengdar og breiddar gráðum hnattlíkana. Línur sem líta út fyrir að vera í föstum skorðum utanum fullkomna kúlu.
HVERNIG BREYTIST NÁLGUN YKKAR EFTIR MIÐLI? ÞEGAR ÞIÐ FÆRIÐ YKKUR ÚR GJÖRNINGUM YFIR Í PRENT, EÐA ÚR SKÚLPTÚR Í KVIKMYND?
Nálgunin er í grunninn sú sama, hugmyndin ræður miðlinum, en stundum er það samt efnið sem tekur forystuna, eins og núna með prentin, þar sem við viljum sjá hvað efnið getur gert. Við tölum stundum um að verkin okkar séu eins og hluti af tré, eins konar ættartré, þar sem einn hlutur getur átt heima á mörgum greinum og haft mismunandi sögn eftir því hvernig hann er settur fram og í hvaða samhengi. Við höfum til dæmis gert búning úr nælonsokkabuxum sem varð að veggteppi, sem varð að silkislæðu.
HVAÐA HLUTVERKI GEGNIR LEIKUR OG TILVILJUN Í YKKAR SKÖPUNARFERLI?
Bæði leikurinn og tilviljanirnar gegna stóru hlutverki í ferlinu. Það er hluti af því að vera í samstarfi, það gefur öðruvísi svörun en þegar maður vinnur einn með sjálfum sér. Alls konar grín, fliss og glens er oft mikil uppspretta sköpunarkraftsins. Babbstraktið kom til dæmis þannig til okkar. Svo kemur auðvitað í ljós að á bak við grínið er oft mikil viska; eitthvað sem maður fattar ekki alveg strax en kemur í gegnum flæðið. Tilviljanir eru líka hluti af ferli og mikilvægt að leyfa þeim að koma manni á óvart, að taka mark á þeim. Misskilningur getur líka verið mjög skapandi og breytt sýn okkar beggja á hugmynd eða framsetningu verks.
ÞIÐ TALIÐ UM “BABBSTRAKT”, HVERNIG FÆDDIST ÞETTA HUGTAK OG HVAÐA MERKINGU HEFUR ÞAÐ FYRIR YKKUR Í DAG?
Þetta byrjaði bara sem grín í samskiptum við innrammarana okkar. Við vorum eitthvað að tala um að prentin væru abstrakt en með mjög mikilvæg nöfn sem er aðeins öðruvísi en á tímum abstraktsins sem snerist aðallega um liti og form. Þá kom upp þetta nýyrði babbstrakt – babb í myndlistarbátinn – s.s. abstrakt þar sem titillinn er mjög mikilvægur hluti verksins.
ÞIÐ HAFIÐ OFT UNNIÐ MEÐ HÚMOR OG ALVÖRU Í SENN, ER HÚMORINN MEÐVITAÐ PÓLITÍSKT TÆKI EÐA EÐLILEGUR HLUTI AF YKKAR TJÁNINGU?
Við erum bara að vera við sjálfar í vinnunni, og okkur þykir oftast gaman að gera það sem við erum að gera. Það kemur stundum í gegn. En við erum líka meðvitaðar um að húmor er mikilvægur miðill til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í myndlistinni.
ÞIÐ NOTIÐ VEIÐARFÆRANET, NÆLONSOCKA OG SLÆÐUR SEM EFNIVIÐ. HVERNIG TENGJAST ÞESSI EFNI LÍKAMANUM, FEMINÍSKRI SÖGU OG PÓLITÍK SAMTÍMANS Í YKKAR AUGUM?
Þetta er mjög stór spurning. Nælonsokkar og slæður tengjast kvenlíkamanum sterkum böndum. Slæðan hefur fylgt konunni frá örófi alda sem skýli, skjól og fylgihlutur, bæði skart og trúarlegur efnisbútur sem hefur á síðustu árum orðið hluti af pólitískum deilum. Nælonsokkarnir eru meira fegurðartákn, en líka tól til að móta líkama kvenna og setja fram ákveðna hugmynd um útlit og hegðun: hárlausir leggir, inn með magann, út og upp með rassinn. Veiðarfæranetið er líka úr næloni og með möskva líkt og netasokkabuxur, en tengist meira klassískum karlageira, eins og sjómennsku — en líka alls konar kerfum og valdastrúktúrum.
ÞIÐ HAFIÐ ALLTAF SPEGLAÐ SAMTÍMANN Á YKKAR EIGIN HÁTT. HVERNIG FINNST YKKUR HLUTVERK LISTAMANNSINS HAFA BREYST FRÁ ÞVÍ ÞIÐ BYRJUÐUÐ?
Þegar við vorum nýútskrifaðar, rétt rúmlega tvítugar, fannst okkur listasenan svolítið kallaleg, alvarleg og mínimalísk. Þannig að bara með því að vera við sjálfar, ungar konur að vinna með það sem okkur fannst spennandi, var ákveðin ögrun í sjálfu sér.
Núna erum við sjálfar orðnar þessi eldri sena, ráðsettar á þægilegum skrifstofustólum að svara tölvupóstum, en samt ennþá að gera það sem okkur finnst spennandi.
HVAÐ HVETUR YKKUR ÁFRAM Í DAG OG HVAÐ ER ÞAÐ SEM KALLAR Á YKKUR NÆST?
Myndlistin sjálf er það sem hvetur okkur áfram, að skapa, nota hugann og hendurnar, verkfræði ömmunnar og okkar sjálfra, vera forvitnar og komast að einhverju nýju með listagyðjuna á öxlinni.
HVAÐ ER NÆST Á DÖFINNI?
Við erum að sýna Flökkusinfóníuna í Scandinavia House í New York fram í febrúar. Næsta verkefni er svo að takast á við eigin verk síðustu ára í gegnum skemmtilegan leik í samstarfi við alþjóðleg ljóðskáld, nokkurs konar blint stefnumót við verk síðustu ára.
Verkin má sjá með eigin augum í Horni Listvals á Hólmaslóð.
„Þegar Heimsálfurinn fékk nafið sitt varð hann allur annar, það sama á við um Póli-tík, Hókus-pókus, Hrók alls, Dúlu og Trans, sem eru nöfn á minni prentunum. Það sama má segja um þau stærri t.d Klettasjal, verk sem birtist á allt annan hátt eftir að það fékk sitt rétta nafn. Himinskaut, Katastrófía, Vitundarvölva, Miðbaugakerfi og Birting, eru einnig nöfn sem öll opna leið inní kviku hvers verks.“
The Icelandic Love Corporation / Gjörningaklúbburinn / Eirún Sigurðardóttir & Jóní Jónsdóttir
Miðbaugakerfi
Prentlitur á grafíkpappír
86 x 114 cm
620.000 kr
The Icelandic Love Corporation / Gjörningaklúbburinn / Eirún Sigurðardóttir & Jóní Jónsdóttir
Katastrofia
Prentlitur á grafíkpappír
86 x 114 cm
620.000 kr
Frá vinnustofu Gjörningaklúbbsins
„Erum við að tala um Katastrófíur með vel flæktu Miðbaugakerfi eða horfum við frammá að geta slegið um okkur Klettasjali í góðum Trans með aðstoð Dúlu nýs heims Vitundarvölvu og Birtingar?Við höfum allavega lagt út okkar net, fangað form og liti augnabliksins til þess að magna upp hugmyndir babbstraktsins, þó brottkastið hafi verið töluvert, þá erum við stoltar af aflanum.“
Works
print color on paper
86
x 114 cm
620.000 kr.
G036
print color on paper
62
x 86 cm
420.000 kr.
G041
print color on paper
62
x 86 cm
420.000 kr.
G040
print color on paper
86
x 114 cm
620.000 kr.
G033
print color on paper
62
x 86 cm
420.000 kr.
G042
print color on paper
62
x 86 cm
420.000 kr.
G043
print color on paper
86
x 114 cm
620.000 kr.
G035
print color on paper
86
x 114 cm
620.000 kr.
G037
print color on paper
86
x 114 cm
620.000 kr.
G034
print color on paper
62
x 86 cm
420.000 kr.
G038
print color on paper
62
x 86 cm
420.000 kr.
G039
print color on paper
86
x 114 cm
620.000 kr.
G032
Gjörningaklúbburinn sýnir verk sín í Listval. Galleríið er opið fimmtudaga og föstudaga frá 13–17
og á laugardögum frá 13–16. Þér er einnig velkomið að hafa samband utan opnunartíma
og panta heimsókn þegar þér hentar.











