Ólöf Björg Björnsdóttir
Ólöf Björg Björnsdóttir (f.1973) býr og starfar á Íslandi, í Álafossverksmiðjunni við Varmá. Hún útskrifaðist frá málaradeild Listaháskóla Íslands árið 2001. Hún nam málaralist við Universidad de Granada á Spáni og kínverska fjögurra blóma blekmálun ásamt teikningu og olíumálun hjá meistara An Ho Bum í Kóreu. Auk þess hefur hún lagt stund á heimspeki við Háskóla Íslands, stúderar shamanísk fræði og hefur lokið diplómanámi í kennslufræði við Listaháskóla íslands. Hún vinnur út frá manneskjunni sem marglaga tengslaveru og skoðar ólíka skynjun, hugsun, tilfinningar og tjáningarleiðir sem færa mannveruna ýmist nær eða fjær sér og öðrum. Frumorka sköpunargleðinnar og tamning er henni hugleikin. Ólöf hefur sýnt á óhefðbundnum stöðum í innsetninga- og gjörningaformi m.a. í Denver og Seattle á vegum Iceland Naturally. Hún hefur fengið hvatningaverðlaun hjá Hafnarfjarðarbæ, styrk frá Reykjavíkurborg. Ólöf tók meðal annars þátt í sýningu “Ung Islandsk Kunst – Herfra og Ud i Verden”á aldarafmæli fullveldis Íslands í Gallerí Bredgade.