Á sýningunni Sumarnorðurljós kannar Geirþrúður Einarsdóttir (f. 1989) ýmis ósýnileg fyrirbæri, bæði raunveruleg og hugmyndafræðileg. Hún vinnur að lágmyndum úr máluðum hörstriga sem sækja innblástur til landslags og loftmynda af óræðum stöðum þar sem minningar af lykt, hreyfingu og veðurfari ráða för. Verkin byggjast upp í lögum og línum og endurspegla sterka tengingu við náttúruna.
„Þau eru þarna en þau sjást ekki í birtunni. Ósýnileg ljós sem þurfa myrkur til að glóa. Það er ekki allt í umhverfi okkar greinanlegt með berum augum. Sumt er alltaf hulið á meðan annað birtist bara við og við. Söknuður getur legið í dvala í felulitum á meðan aðrar tilfinningar eru alltumlykjandi. Ástand þar sem eitthvað sem búist var við, óskað eftir eða leitað að er ekki til staðar. Árstíðirnar eru þó alltaf þær sömu – sumar, haust, vetur og vor – aftur og aftur. Farfuglarnir, þeir koma líka alltaf aftur, en flækinga er ekki hægt að treysta á; þeir eru sjaldséðir. Smáél hverfur þegar það bráðnar í vetrarsólinni. Ferðalangar leggja af stað með áttavita í hönd. Er norður alltaf norður? Hvernig vita fuglarnir hvert þeir eiga að fljúga? Stundum þarf myrkur til að sjá ljós.“
								




















